Globenewswire

Klappir Grænar Lausnir hf.

Share

Klappir Grænar Lausnir hf. - Ársreikningur 2020

Klappir grænar lausnir hf.: Ársreikningur 2020

Lykilstærðir

  • Fjöldi notanda 4.000
  • Rekstrartekjur voru 321,8 mkr.
  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 25,1 mkr.
  • Afskriftir óefnislegra eigna voru 58,6 mkr.
  • Rekstrartap tímabilsins nam 37,5 mkr.
  • Heildareignir voru 484,5 mkr.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 35 mkr.
  • Eiginfjárhlutfall var 85,6% (72,9% árið 2019)
  • Veltufjárhlutfall var 6,4 (2,8 árið 2019)
  • Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 20

Rekstur

Notendum fjölgaði um 72% á milli ára eða úr 2.328 á árinu 2019 í 4.000 notendur á árinu 2020.

Áskriftartekjur hækkuðu um 8,7% á milli ára eða úr 214,1 mkr. á árinu 2019 í 232,7 mkr. á árinu 2020.

EBITDA af reglulegri starfsemi samstæðunnar hækkaði úr -39,9 mkr. á árinu 2019 í 25,1 mkr.  á árinu 2020.

Rekstrartekjur samstæðunnar hækkuðu um 3,2% á milli ára eða úr 311,9 mkr. árið 2019 í 321,8 mkr. á árinu 2020.

Rekstrargjöld lækkuðu um 15,6% á milli ára eða úr 351,8 mkr. árið 2019 í  296,8 mkr. á árinu 2020.

Tap samstæðunnar minnkaði um  74,9% á milli ára eða úr -149,6 mkr. árið 2019 í -37,5 mkr. árið 2020.

Efnahagur

Heildareignir voru 484,5 mkr. og hafa lækkað úr 490,5 mkr.  frá árslokum 2019.

Eigið fé nam 414,7 mkr.

Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 35 mkr. samanborið við 65 mkr. í ársbyrjun.   

Aðalfundur

Aðalfundur Klappa grænna lausna verður haldinn þriðjudaginn 13. apríl 2021 og hefst fundurinn klukkan 16:00. Fundurinn verður haldinn á Hótel Hilton en hluthöfum verður einnig boðið upp á þátttöku í gegnum fjarfundarbúnað. Hluthöfum verður sendur fundahlekkur fyrir fundinn.

Sökum Covid-19 er hluthafar beðnir um að skrá sig á fundinn á heimsíðu félagsins www.klappir.com

Tillaga stjórnar um arðgreiðslu

Ekki er lagt til að félagið greiði arð.

Samþykkt ársreiknings

Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Klappa grænna lausna hf. þann 23. mars 2021.

Ársreikningurinn hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins og er hann aðgengilegur á heimasíðu Klappa grænna lausna hf., www.klappir.com

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri:

"Þrátt fyrir ný og ófyrirséð verkefni sem þurfti að takast á við vegna heimsfaraldursins þá unnum við markvisst að tilgangi félagsins á árinu 2020 með áframhaldandi nýsköpun á sviði sjálfbærni og frekari uppbyggingu á þjónustu við viðskiptavini.  Þrátt fyrir mikla óvissu þá reyndist árið 2020 gott fyrir Klappir. Salan á hugbúnaðarlausnum Klappa jókst lítillega og veruleg fjölgun varð á notendum. Klappir nutu þess að hafa endurskipulagt rekstur félagsins á árinu 2019 sem skilaði sér vel þegar takast þurfti á við breytt viðskiptaumhverfi strax á fyrsta ársfjórðungi ársins. Starfsfólkið okkar lagðist á árarnar með félaginu og flestir starfsmenn unnu að heiman um þó nokkurn tíma.

Á haustmánuðum unnu stjórn og stjórnendur að því að skerpa á viðskiptastefnunni sem sett var fram við skráningu félagsins árið 2017 og gilti til 2020. Kjarninn í viðskiptastefnunni er áfram sá að fjölga notendum með því að byggja utan á vistkerfi Klappa á hverjum tíma bæði hérlendis og erlendis. Áfram verður verður lögð rík áhersla á að notendum fjölgi hratt þannig að markmið félagsins um að vera komin með 15.000 notendur á árinu 2025 náist. Eftir því sem vistkerfi Klappa stækkar því hraðari verður fjölgun notenda - fjölgun notenda verður því mest þegar nær dregur 2025. Með þessum notendafjölda teljum við að Klappir nái að halda sterkri stöðu og áframhaldandi afgerandi forystu í alþjóðlegu samhengi.

Í lok ársins var ljóst að stóru endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækin myndu stíga fast inni í bæði endurskoðun á uppgjörum fyrirtækja og ráðgjöf á sviði sjálfbærni. Þetta styður vel við stefnu Klappa og hjálpar til við að teikna upp þennan nýja iðnað. Klappir eru með skýra stefnu um að einbeita sér að þróun á hugbúnaði og tengdri aðferðafræði ásamt öflun og miðlun þekkingar og ætla sér því að koma á þéttu samstarfi við endurskoðendur og ráðgjafa á sviði sjálfbærni, samfélaginu öllu til hagsbóta. Við munum því áfram einbeita okkur að frekari uppbyggingu á Klappar vistkerfinu, tækninni, fjölgun notenda og stafrænu samstarfi þeirra sem er ein af mikilvægustu forsendum þess að við náum árangri í umhverfis- og loftslagsmálum.

Í desember vorum við með opna málstofu um sjálfbærni þar sem notendur að hugbúnaði Klappa kynntu það hvernig þeir hefðu nýtt sér hugbúnaðarlausnir Klappa. Málstofan tókst gríðarlega vel og mættu um 300 aðilar sem var langt umfram okkar væntingar. Við höfum einnig verið með fjölda námskeiða á vefnum sem hafa verið vel sótt og skilað okkur öflugri tengingu við viðskiptavini/samstarfsaðila okkar.

Þó svo að við séum með erlenda áskrifendur þá er Ísland er okkar heimamarkaður og kemur til með að verða okkar mikilvægasti markaður um ókomna tíð. Með okkar góðu samstarfsaðilum á Íslandi erum við að þróa tækni og aðferðafræði sem á engan sinn líkan í heiminum - aðferðafræði sem tengir okkur saman í eitt vistkerfi þar sem engar hindranir eru í að deila upplýsingum um sjálfbærni, gögnum og þekkingu sem styður okkur sem heild í að ná sameiginlegum markmiðum okkar er einstök. Við vinnum stöðugt að því að efla stafrænar tengingar hugbúnaðarins til að auðvelda samskipti og styrkja gagnasendingar á milli aðila.

Vegna tækni Klappa þá er fjöldi Íslenskra fyrirtæka, stofnanna og sveitarfélaga með afgerandi forystu í heiminum tengdri stafrænum samskiptum, almennri upplýsingagjöf, gagnsæi og traustri framsetningu á sjálfbærni uppgjörum. Hugbúnaður Klappa talar beint við sumar af gagnagáttum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna sem tengjast sjálfbærni þannig að gagnasendingar eru skilvirkar þegar kemur að skilum aðila á lögbundnum skýrslum og gögnum til þessara aðila.

Þetta Íslenska þróunarumhverfi sem við búum við hjá Klöppum er einstakt á heimsvísu - það stendur saman um fjármögnun, þróun og notkun á algerlegra nýrri tækni og aðferðafræði til að takast á við umfangsmestu áhættu sem mannkynið stendur frammi fyrir. Það verður erfitt fyrir mögulega samkeppnisaðila sem vilja þróa svipaða tækni og aðferðafræði í framtíðinni að finna sambærilegt þróunarumhverfi og Klappir búa við. Kostnaður við þróun á tækninni er þegar að nálgast tvo milljarða - þessi þróunarkostnaður hefur verið fjármagnaður af hluthöfum, samstarfsaðilum og samkeppnissjóðum.

Til að nýta það samkeppnisforskot sem Klappir hafa þá leggjum við mikla áherslu á að auka hraðann á dreifingunni. Til þess þá byrjuðum við að þróa og innleiða dreifingartæki fyrir hugbúnaðinn sem eykur hraðann á skráningum og innleiðingu notenda. Þetta hefur skilað okkur góðum árangri en með þessari tækni höfum við náð því að skrá allt að fimmtíu notendur á dag. Frekari þróun á þessari tækni verður haldið áfram á árinu 2021.

Klappir er farsælt fyrirtæki sem hefur notið þess stöðugleika og þolinmæði sem verður að vera til staðar þegar verið er að taka áhættuna af því að þróa nýja tækni fyrir markað sem er í mótun. Þó ástæðurnar séu margar þá er ein helsta ástæðan uppbyggingin á hlutabréfum félagsins. Fyrirkomulag með tveimur flokkum hlutabréfa veitir Klöppum nauðsynlega kjölfestu til að fylgja eftir framtíðarsýn og tilgangi félagsins til langs tíma - á sama tíma veitir það gott jafnvægi milli hluthafa sem horfa til verðmætasköpunar og uppbyggingar félagsins til lengri tíma og þeirra hluthafa sem horfa til skammtíma ávöxtunar".

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri í síma 664 9200.

Viðurkenndur ráðgjafi
Viðurkenndur ráðgjafi Klappa grænna lausna á Nasdaq First North eru ADVEL lögmenn.


Attachment

To view this piece of content from www.globenewswire.com, please give your consent at the top of this page.
To view this piece of content from ml-eu.globenewswire.com, please give your consent at the top of this page.

About Globenewswire

Globenewswire
Globenewswire
Denmark & Iceland


+45 89 88 2046http://globenewswire.com
DK